Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Í návist alkóhólista. Reynslusaga

Sad-520x248Hugsa oft til Stockhólms og æsku minnar þar.  Minnið er gloppótt en margt hlýtur að hafa gerst þessi fyrstu 12 ár mín í Svíþjóð.

Kom í heiminn í miðbæ höfuðborgar Svíþjóðar rétt hjá hverfinu hennar ömmu.  Ég er sænskur í eðli mínu eitthvað Stockhólmskt í mér sem ekki fer.

Við gerðum vissulega stutta millilendingu í þekktum síldarbæ á Íslandi á þessum tíma.  Komum frá Stockhólmi þrjú og bróðir minn fæddist þar en það var  millilending á ferðalagi sem ætlar engan endi að taka.

Bjuggum eftir Siglufjarðardvölina fyrstu árin á þremur stöðum úti þar til gefist var upp og flutt til Íslands.  En það tók mörg ár og kostaði margar andvökunætur hjá öllum þar til Íslandsferð var eina leiðin út úr vandræðunum.

Þarna mótaðist ég sem einstaklingur. Lokaðist,  já eiginlega er það orðið sem nota má um mig sem barn án þess sem ég sé núna nokkurra einustu tilfinninga.  Að vænta einskis var leiðin til að lifa lífið af.  Gjördeyfður má segja að ég hafi verið fram yfir fermingu í höfuðborg norðurlands Akureyri.

Bollur, mjólk og sumarbúðir, mjúkt malbik og garðúðar, leikir útí skóginum, snjókast inn um gluggann mikið meira er ekki í minningu minni um þessi ár í Stockhólmi. Afgangurinn er líf í ótta, alltaf að passa mig og aðra, slökkt á minnishlutanum, stöðug ábyrgð á mömmu, og strákunum, lesa í hugsanir og reyna að fyrirbyggjavandræði.  Sífelld streita án nokkurrar hvíldar er yfirþyrmandi upplifun mín af þessum árum.

Ætla ekki að reyna að muna eftir neinu sérstöku.  Það voru örugglega jól, páskar og afmæli en ég er eins og auð blaðsíða þegar þetta er rætt. Veit samt ekki hvernig mér líður með þetta?  Undarlegur tómleiki er þarna, stór hluti lífs míns er týndur og ég veit ekki hvort þetta kemur aftur.

Ég man atvik þar sem pabbi var fullur og með hávaða.  Mamma varð að fara og sagði að pabbi léti yngri bræður mína í friði en við yrðum að fara.  Svo við gengum út í náttmyrkrið til nágranna að sofa eina og eina nótt. Ég hlustaði á allt og var með í allri ábyrgð og allri angist sem fylgdi þessum flótta frá manni sem ég vissi aldrei hvað myndi gera næst.

Ég var maðurinn í húsinu. Ég bar ábyrgð á að hinum liði vel og væru örugg. Ég upplifði alltaf  tómleika “ekki neitt” aldrei vonbrigði, lifði bara engin von bara að ég ætti að gera þetta augnablik gott og vera í lagi fyrir hin.  Get séð það í dag að ég var frystur og í hjúpi frá fæðingu og fram undir fimmtugsaldur.

Harður skrápur myndaðist í kringum mig á fyrstu árum ævi minnar ekkert fór frá mér og ekkert mátti komast inn fyrir og rugla mig.

Ég var í fimm ár í skóla þarna en man ekki einn skóladag! Segi alveg satt ég man ekkert! Í raun skelfilegt en allt er þurrkað út og tómið eitt eftir.

Ég vakti oft sem barn til að fylgjast með hvort pabbi kæmi fullur heim.  Þorði ekki að sofna fyrr en ég vissi hvernig ástandið væri. Bræður mínir sofnuðu en ég lá vakandi og hlustaði.  Vissi að mamma sat vakandi í eldhúsinu og beið eins og ég. Pabbi var farinn að drekka flesta daga vikunnar og missa vinnu vegna drykkjunnar.  En það var eins og það skipti engu máli hann gat engu breytt þrátt fyrir stöðug loforð um annað.  Svo kom að því að hann missti vinnuna og við urðum að flytja í litla tveggja herbergja stúdíóíbúð í kjallara í næsta hverfi.  Við gátum sem betur fer gengið í sama skóla þetta var aðeins hinum megin við hann.

Þarna var mamma farin að fara að heiman nokkuð oft vegna óláta og drykkju pabba og ég var oftast með á hlaupunum.  Þeir yngri sofandi heima!  Peninga vantaði oft fyrir mat og ég var að selja flöskur og vinkona mömmu lánaði líka peninga.  Vinnan samdi svo við mömmu að hún fékk launin til sín en pabbi fékk bara lítinn hluta eftir þetta. En það var auðvitað ekki nóg!  Allt öryggi var farið og öllum leið illa.  Allar aðstæður voru hörmulegar og engin kom lengur til okkar nema einn bróðir mömmu sem leit af og til við.  Fjölskyldan einangraðist vegna alkóhólísmans og þrátt fyrir vilja margra til að hjálpa dugar ekkert ef alkóhólistinn vill ekkert gera.  Man eftir ofsaskapi pabba algjöru stjórnleysi, öskur og hótanir og verst var þegar hann otaði hnífi að okkur.  Upplifði hann geðveikan þekkti hann ekki og varð ofsahræddur og veit að í þessu öllu var minnið mitt þurrkað út.  Annars hefði ég ekki lifað af álagið sem var í kringum þetta.

Þarna skapaði ég þessi ofurábyrgð, þörfina fyrir að alltaf standa mig, alltaf skilja og vera skilningsríkur, missti um leið alla trú á mig enda alltaf skammaður og kallaður aumingi af pabba þegar þetta gekk á.

Á fullorðins árum mínum upplifi ég sterka þörf fyrir að alltaf gera eitthvað svo fólki líki við mig.  Að ég sé einskis virði eins og ég er.  Einangraðist mikið þrátt fyrir vinnu og annað.  Var einn innra með mér – einmanna. Hef ekki kunnað á fullorðins samskipti á jafningjagrunni.  Það var í lagi í vinnunni ég varð yfirmaður hafði hlutverk og stóð mig vel.  Kunni að taka ábyrgð og vera duglegur og samviskusamur. Í félagslífinu var ég hækja á mínum fyrrverandi sem sá um að bjóða fólki og að við færum út.

En ég í sjálfum mér var einskisvirði og ekki þess virði að elska.  Fann stöðugt fyrir meira tilgangsleysi og átti erfiðara með að sinna vinnu og hitta fólk.  Notaði einu aðferðina sem ég kunni og frysti mig og leyfði engum að nálgast eða vita hvernig mig leið á bakvið grímuna sterku.

Á endanum skildi ég og einangraðist meir og meir. Fór út á kaffihús þar sem ég kunni hlutverkið, var í vinnuhlutverkinu en svo var ég búinn á því og lokaði mig af og sagði oftast “sófinn er besti vinur minn” lífið var búið eftir kl. fjögur á daginn.

En ég fann aftur líf til að lifa þegar ég fór að skoða meðvirkni mína og vinna í 12. spora samtökum sem fjalla um þessi mál. Það er líf eftir meðvirkni.  Það hefur ekki verið og er enn ekki auðvelt að breyta gamla mynstrinu mínu og allri lærðri hegðun úr æsku.  Ég er enn að bregðast við samkvæmt viðbrögðum sem ég lærði sem barn en ég er meðvitaður um það og reyni að endurtaka ekki hlutina heldur læra af þeim og fara nýja leið.  Lífið er betra það er auðveldara en stundum staldra ég við og finn hik við þessa nýju upplifun mína af lífinu. Þetta er flest svo nýtt og öðruvísi en smátt og smátt er mér að takast að breyta hlutunum einum í einu einn dag í einu.

Það er erfitt að leyfa þeim sem mér þykir vænt um að takast sjálf á við sitt líf.  Ég hef oft viljað vera með puttann í því. En hver og einn verður sjálfur að finna sjálfan sig engin getur gert það fyrir hann.  Það er ég að læra og oft er ég hissa þegar ég stend frammi fyrir nýjum atvikum í lífi mínu.   Í fyrstu hræðist ég þessa hluti, staði eða fólk en veit að með því að stíga inn í óttann mun ég upplifa lífsfyllingu og gæði sem eru engu öðru lík.


Reynslusaga konu

Reynslusaga-520x248Ég ólst upp á mjög alkóhólísku heimili þar sem báðir foreldrar voru virkir alkóhólistar. Neyslumynstur þeirra var ólíkt en það breytti ekki þeirri staðreynd að heimilislífið var mjög meðvirkt/vanvirkt.

Ég man ekki mikið úr barnæsku minni, helst eitthvað sem tengist ljósmyndum og svo einstaka atvik héðan og þaðan. Sem barn fannst mér ég alveg óskaplega ljót og strákaleg, var alltaf klippt í svokallaðan drengjakoll, ekki bætti það úr að mér þótti ég strákaleg í útliti heldur fannst mér ég líka heita strákalegu nafni. Ég átti fáa vini og var alltaf í mikilli baráttu við hinar vinkonur vinkvenna minna að vera á undan þeim eða hafa upp á eitthvað spennandi að bjóða því ég upplifði ekki að ég, ein og sér, væri nóg til að þær vildu leika við mig.

Ég vil taka það skýrt fram í þessari frásögn minni að ég elska foreldra mína óskaplega heitt og virði þau að fullu leiti. Þau búa yfir óskaplega mörgum kostum og eru í heildina yndislegar manneskjur. Ég trúi því í einlægni að þau hafi gert sitt besta í uppeldi mínu miðað við aðstæður og þá þekkingu sem þau bjuggu við á þessum tíma.

Fjölskyldan mín var ósköp venjuleg millistéttarfjölskylda, foreldrar og þrjú börn. Mamma stjórnaði heimilinu af mikilli röggsemi en kannski örlítið of mikilli ákveðni og heraga á stöku stað. Pabbi var þessi týpíski íslenski karlmaður, vinnusamur og duglegur en ekki mjög opinn á tilfinningar eða hrós, sem ég held að þessari kynslóð, hafi fundist, vera bara fyrir miðaldra kellingar. Ég var mikil pabbastelpa og sóttist í að vera nálægt honum á verkstæðinu, þar sem ég fékk alls kyns verkefni til að spreyta mig á. Ég lagði mig fram við að læra nöfnin á verkfærunum og vélunum til að sækjast eftir viðurkenningu og einnig lagði ég mig mikið fram við að vera sterk og dugleg. En hrósið lét oft á sér standa, og kom yfirleitt ekki fyrr en hann var búinn að fá sér neðan í því, þá mátti ég eiga vona á að hann segði eitthvað fallegt við mig. Einnig lagði ég mig mjög ung fram að fá viðurkenningu mömmu með því að vera dugleg heima og hafa fínt þegar hún kæmi heim úr vinnu. Það tókst oftar að fá hrós eða viðurkenningu frá mömmu þar sem hún er opnari tilfinningalega. Samt held ég að það hafi bara verið álitið á þessum árum að ef börnum væri hrósað um of yrðu þau bara montin og leiðinleg.

Ég var bara barnung þegar ég fór að nota „trúðinn“ sem mína grímu, það var alveg sama hvað gekk á heima og hvernig mér leið, ég greip alltaf í trúðinn minn og hann hjálpaði mér að sjá lífið í skemmtilegu og spaugilegu ljósi. Það var alltaf stutt í grín og glens og ég náði fljótt að tileinka mér að snúa lífinu og tilverunni upp í grín. Eftir að ég eltist fór ég að skammast mín fyrir trúðinn af því mér fannst fólk ekki taka mig alvarlega, hélt alltaf að ég væri að grínast eða að fólk fór að ætlast til þess að ég væri alltaf með sprell og kannski smá skemmtidagskrá. Ég sættist fullkomlega við trúðinn minn eftir að hafa áttað mig á því með aukinni sjálfsvinnu að trúðurinn hefur í raun og veru bjargað lífi mínu, hann hefur gert það að verkum að ég hef átt auðveldara með að höndla erfiðleikana sem ég glímdi við sem barn.

Ég man eftir að hafa upplifað vanlíðan en gerði mér ekki grein fyrir af hverju hún stafaði, ég gerði uppreisn í kringum fermingu og fór að neita áfengis og tóbaks. Einnig fór ég snemma að leita að strák til að vera kandídat í þessa „fullkomnu“ fjölskyldu sem mig hafði svo lengi dreymt um. Ég átti tvö sambönd að baki þegar ég hitti manninn í lífi mínu. Lífið var næstum fullkomið, fórum að búa, eignuðumst barn, keyptum íbúð, annað barn o.s.frv. Það má segja að við höfum ákveðið að taka hraðlestina í gegnum lífið svo mikið gekk á að finna hamingjuna, „réttu“ íbúðina, fleiri börn. Það var ekki fyrr en nokkrum árum seinna sem ég áttaði mig á því að þetta líf var ekki eins fullkomið og ég hélt.

Ég hafði farið út í lífið með skakka mynd af hjónabandi og hann hafði einnig fengið skakka mynd af samskiptum foreldra þrátt fyrir að þar hafi ekki verið áfengisvandamál, þá voru þar mjög meðvirkar/vanvirkar aðstæður. Ég var þessi ofur stjórnsama eiginkona og hann lét oftast vel að stjórn, þangað til hann sprakk og fór að leita í spilakassa. Veröld mín hrundi og fullkomna fjölskyldan mín reyndist einstakleg ófullkomin. Eftir að hafa reynt í töluverðan tíma, vildi maðurinn minn skilnað sem var mitt stærsta áfall í lífinu. Ég var harmi slegin og var sannfærð um að ég ætti aldrei eftir að líta glaðan dag meir. Skilnaðurinn var mér erfiður og tók langan tíma fyrir mig að jafna mig tilfinningalega. Eftir á sé ég að ég var búin að vera í mörg ár í þráhyggjusambandi ,við manninn minn, en sá það ekki fyrr en eftir á hversu sjúkt sambandið okkar var orðið og hversu meðvirk ég var. Eftir að ég varð ein fór ég að leita að einhverjum til að standa mér við hlið því ég var sannfærð um að ég gæti ekki gengið í gegnum lífið ein. Þessar hugsanir, ef ég ætti kærasta, ef ég væri með hærri laun, ef ég þetta og hitt, þá væri allt betra voru daglegt brauð hjá mér og ég var sannfærð um að ég yrði að finna einhvern mann sem gæti gert mig hamingjusama.

Ég hafði einstakt lag á þessum tíma að laðast að mönnum sem áttu eitthvað erfitt, því það hlutverk kunni ég, þeir þurftu á mér að halda. Þessi samskipti stóðu ekki lengi og voru ekki gefandi nema á annan veginn, ég var (og er) mjög óspör á að gefa af mér og geri ekki miklar kröfur um að fá eitthvað til baka. Það lærði ég í samskiptum mínum við elsku pabba minn að það var betra að fá hrós undir neikvæðum kringumstæðum en ekkert hrós. Þetta tímabil í lífi mínu einkenndist af hverri höfnuninni á fætur annari, mér fannst ég ekki nógu góð alveg sama hvað ég lagði mig mikið fram í hlutverki mínu. Ég var sannfærð um að ég væri með einhvern segul, á einhverja ræfla sem færu illa með konur og ég vissi ekki hvernig ég ætti að losa mig við þennan segul.

Ég var eiginlega í algjörum molum, búin á sál og líkama, var sannfærð um, að ég væri geðveik, klikkuð, leiðinleg, ómöguleg og ég yrði bara að sætta mig við að það vildi enginn konu eins og mig þegar ég var að vafra á netinu og rakst á lista yfir það sem einkennir meðvirkni. Ég vissi að ég væri meðvirk en þar sem það var enginn fíkill í mínu lífi þá vissi ég ekki að ég gæti „ennþá“ verið meðvirk. Ég las þennan lista og brá heilmikið þegar mér fannst eins og einhver hefði skrifað þessi orð um mig. Ég fór í einkaviðtal hjá ráðgjafa Lausnarinnar og fannst eins og það opnuðust dyr sem ég hafði aldrei séð áður. Það var mikill léttir að uppgötva að ég væri ekki sturluð, brjáluð eða eitthvað þaðan af verra. Ég áttaði mig á því að það sem ég hafði lært í æsku voru röng skilaboð og í raun þyrfti að forrita mig upp á nýtt. Það sem ég hef uppgötvað og lært hjá Lausninni og í Coda er til dæmis: •Ég uppgötvaði að því að ég kunni til dæmis ekki að setja fólki mörk, ég sagði mjög oft já án þess að vilja það kannski og átti það svo til að verða pirruð yfir því að ég yrði alltaf að gera allt fyrir aðra en aðrir gerðu aldrei neitt fyrir mig. Þetta á einnig við um þá menn sem ég hitti og fannst hálfgerðir drullusokkar, þetta eru örugglega upp til hópa ágætis náungar en ég kunni bara ekki að setja þeim mörk og segja „ég vil ekki að þú komir svona fram við mig“. •Ég uppgötvaði að ég get og má alveg biðja aðra um hjálp eða aðstoð og einnig að viðkomandi getur kannski sagt nei. Það var eitthvað sem ég þekkti ekki að segja nei, ég hafði aldrei gert það.

Það var stórkostlegt skref þegar ég prufaði í fyrsta skipti að segja nei og viðkomandi sagði bara allt í lagi.

•Ég hef lært að stjórnsemi og heragi er ekki vænlegur til uppeldis og hef ég lært nýjar aðferðir við uppeldi barnanna minna.

•Ég uppgötvaði að því að það er mitt að næra mig og gera mig hamingjusama, ekki annarra.

•Ég þarf ekki að gera eitthvað fyrir fólk eða gefa því eitthvað til að vera þess virði að einhver vilji umgangast mig.

•Ég uppgötvaði að ég má gera mistök og reyni ef það gerist að læra af þeim og koma þá fram við mig eins og ég myndi koma fram við bestu vinkonu mína í stað þess að rífa mig niður fyrir að vera ófullkomin og ómöguleg.

•Ég hef lært að þakka fyrir allt það góða sem lífið hefur gefið mér og upplifað innihaldsríkara líf.

•Síðast en alls ekki síst uppgötvaði ég að ég er bara alveg frábær að svo mörgu leiti, hef svo marga góða kosti og hef bara alveg leyfi til að taka pláss í þessu lífi eins og ég er.

•Í raun er þetta bara brot af því sem ég hef lært því það gæti orðið ansi langur listi.

Ég er ennþá meðvirk og verð það alla mína ævi en í dag hef fengið verkfæri í hendurnar og lært að nota þau til að öðlast betri samskipti við fólkið í kringum mig. Ég hef Lausnina og Coda til að fá leiðbeiningar og aðstoð ef ég fer óvart út í skurð og gleymi að nota verkfærin. Ég horfi björtum augum á framtíðina og hlakka til að takast á við lífið og það sem það hefur upp á að bjóða. Ég er einnig þakklát fyrir þær þrautir sem ég hef þurft að ganga í gegnum í lífinu, því þær hafa gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag.

Nánari upplysingar um meðvirkni á www.lausnin.is


Hið íslenska meðvirka samfélag

Family 85
Umræðan um meðvirkni hefur verið að aukast í íslensku samfélagi undanfarin misseri og helgast það að mestu af því hve mikil vakning er meðal fólks um mikilvægi lífsgæða.
 
Meðvirkni hefur verið þekkt í umræðunni lengi og af mörgum ofnotað og afbakað. Flestir líta svo á að meðvirkni tengist í mestu alkóhólískum fjölskyldum, þ.e.a.s. að búa með fíkli en í raun er þar bara hluti af vandanum.
 
Meðvirkni verður ávallt til í æsku. Hún verður til við langvarandi vanvirkar (óeðlilegar) aðstæður sem brjóta eða brengla sjálfsmat barnsins. Þessar aðstæður geta helgast af ýmsu, s.s. alkóhólisma á heimili, ofbeldi, óþroska foreldra, meðvirkni og langveiki svo eitthvað sé nefnt en oft er ekki um áberandi vandamál að stríða hjá uppeldisaðilum heldur frekar kunnáttuleysi að ræða. Meðvirkni verður til þegar foreldrar leiða barn sitt inn í háttarlag sem heftir eða breytir eðli þess að einhverju leiti. Tilfinningar, þarfir og þrár barnsins eru hindraðar, brotnar niður eða ekki ýtt undir þær á eðlilegan hátt. Sú vanvirkni sem verður til í uppeldinu getur haft mjög afgerandi áhrif á einstaklinginn þegar hann eldist.
 
Meðvirkni er að mínu mati stærsta heilbrigðisvandamál íslensks samfélags í dag. Við sjáum meðvirkni allstaðar í kring um okkur. Meðvirkni má sjá þar sem fólk stendur ekki með sjálfu sér, er að stjórnast í öðrum, þykist vita betur, leyfir öðrum ekki að vera eins og þau eru o.s.frv. Þetta sjáum við í pólitíkinni, á vinnustöðum, inn á heimili eða í samskiptum við vini eða kunningja. Einnig sjáum við stjórnsemi, tilætlunarsemi, yfirgang og hroka, baktal, ofbeldi og einelti allt er þetta meðvirkni í grunninn.
 
Fíknir samfélagsins eru í grunnin upprunnar út frá meðvirkni. Meðvirkni, eða brotin sjálfsvirðing veldur sársauka, innri vanlíðan sem við getum eðlilega ekki lifað við. Til þess að lifa ekki statt og stöðugt í vanlíðaninni þá þurfum við á flóttaleið að halda og þær eru margar í boði í dag og þeim fer fjölgandi. Áfengis og vímuefnafíkn þekkjum við, kynlífsfíkn, spilafíkn, átraskanir, innkaupafíkn, fíkn í hreyfingu, sjónvarpsfíkn, tölvuleikjafíkn og sjálfskaðandi hegðun og síðast en ekki síst vinnufíkn. Fíknirnar eru leið okkar til að flýja sársaukann, vanlíðan, getuleysi, flýja þá erfiðu staðreynd að það er ekki allt í lagi hjá okkur. Óttinn við sjálfsskoðun, óttinn við að skoða hvaðan sáraukinn kemur eða að leggja vinnu í hann, óttinn við að vita ekki hvað gerist ef við lögum líf okkar er svo mikill að við þorum ekki að hreyfa við fortíðarvandanum. Það er auðveldara að sigra heiminn heldur en sjálfan sig er frasi sem segir allt sem segja þarf.
 
Ástæða þess að ég segi að meðvirkni sé stærsta vandamál íslensks samfélagsins má rökstyðja með eftirfarandi hætti. Samfélagið okkar er lítið og var ekki alls fyrir löngu tiltölulega einfalt í sniðum. Foreldrar okkar eða afar og ömmur bjuggu í sveitasamfélagi þar sem karlmaðurinn var höfuð heimilisins og konan átti að sjá um börnin, heimilið og eldamennskuna. Konan átti ekki jafnan tilverurétt á við karlinn, hún varð að aðlaga sig að því hlutverki sem samfélagið ákvað fyrir hana, hún átti ekki möguleika á að fylgja sínum þörfum, löngunum og þrám, hún gat ekki verið hún sjálf, hún lærði hlutverk, hún varð meðvirk. Karlinn varð líka að aðlaga sig að ákveðnu hlutverki, hann átti að sjá fyrir fjölskyldunni, annað var skammarlegt, það var ekki til siðs fyrir karlmann að tjá tilfinningar sínar og ekki óalgengt að hann átti við drykkjuvanda og eða var laus höndin. Karlinn hafði alls ekki tilfinningarlegt frelsi sem gerir hann einnig meðvirkan, þ.e.a.s. vanvirkan í tilfinningarlegum samskiptum. Hér er ég að mála algenga mynd en alls ekki algilda, þetta er gert til að sýna í grunninn hvernig vanvirk hegðun verður til. Og það sem vert er að hafa í huga er að meðvirkir einstaklingar ala af sér meðvirka einstaklinga, sem segir að íslenskt samfélag hefur fjöldaframleitt meðvirkla, ef svo má að orði komast.
 
Vandinn er víðtækur og mikið af fólki úti í samfélaginu sem þjáist vegna hans og vert að taka höndum saman. Þekkingin á meðvirkni hefur aukist til muna á síðustu áratugum og eru Bandaríkjamenn þar fremstir í flokki. Ráðgjafi að nafni Pía Mellody er mjög virt í þessu meðvirkni umhverfi og leitum við hjá Lausninni helst í hennar viskubrunn. Pia Mellody talar um fimm grunn einkenni sem öll börn hafa. Þau eru verðmæt, viðkvæm, ófullkomin, óþroskuð, háð/þurfandi. Þessa þætti er mikilvægt að næra á réttan hátt annars er hætt við að barnið upplifi óöryggi og brotið sjálfsmat.
 
Dæmi. Barnið er í eðli sínu VIÐKVÆMT, það hefur þörf fyrir vernd foreldranna þar sem það hefur ekki markakerfi. Foreldrarnir sjá um að vernda barnið og í virkum fjölskyldum fær barnið viðunandi þjálfun í að læra að setja mörk. Það er í eðli foreldra að gera alltaf sitt besta og að sjálfsögðu leggjum við okkur fram við að vernda barnið fyrir utanaðkomandi áreiti. En yfirleitt er helstu vanvirknina að finna í innsta hring fjölskyldunnar. Foreldrar í ójafnvægi, í neyslu, stjórnsamir foreldrar eða markarlausir (eftirgefanlegir), þeir ná ekki að kenna barninu að setja eðlileg mörk. Barn sem upplifir ofbeldi foreldra sín á milli, andlegt og eða líkamlegt, barn sem jafnvel verður sjálft fyrir ofbeldi frá foreldrum eða systkinum mótar með sér vanvirkt markarkerfi eða jafnvel er markarlaust. Slíkir einstaklingar geta annarsvegar orðið ofurviðkvæmir einstaklingar sem eiga mjög erfitt með að standa gangvart öðrum og hættir oft til að verða fyrir áreiti jafnvel einelti eða þeir setja utan um sig veggi, þar sem ekkert heggur á þeim, og hleypa engu að sér. Báðir þessir einstaklingar eiga í erfiðleikum með samskipti þegar kemur inn á fullorðinsárin. Þetta er bara eitt dæmi um afleiðingar vanvirkni á börn. Í starfi mínu sem ráðgjafi síðastliðin ár hef ég ítrekað rekið mig á sama vandann hjá fólki sem hefur leitað til Lausnarinnar. Allir eiga það sammerkt að vermætamat þeirra á sjálfu sér er í lamasessi. Ef þú verð metur ekki sjálfan þig eðlilega, þá getur þú ekki kallað eftir því að aðrir geri það. Þú setur þig niður fyrir suma og eðli síns vegna finnur þú einhverja sem þú upplifir þig betri en. Getuleysi í samskiptum getur verið áberandi eða þá að þú leggur allt kapp á að aðrir sjái að allt sé í lagi hjá þér, heimili, börnin, fjölskyldan o.s.frv. Passar upp á það að engum detti í hug að þú átt við vandamál að stríða, sem er innra með þér. (nánari upplýsingar má finna hjá ráðgjöfum Lausnarinnar)
 
Hér er ekki um fullnægjandi yfirferð að ræða heldur aðeins inngrip og mikilvægt að átta sig á hversu víðtæk meðvirkni er og hversu alvarleg áhrif hún hefur á líf okkar. Ef þú átt í erfiðleikum með samskipti við aðra, fjölskyldu, vini maka, vinnufélaga, ef þér líður illa reglulega, ef þú ert ekki hamingjusöm manneskja, ef þú ert í sambandi eða samskiptum þar sem þú gefur afslátt á þörfum þínum, þrám og löngunum, þá gætir þú vel átt við meðvirkni að stríða og nokkuð ljóst að ef þú breytir ekki neinu í þínu lífi, þá mun ekkert breytast. Hafðu samband, þú hefur engu að tapa en gætir haft allt að vinna.
 
Kjartan Pálmason
Ráðgjafi Lausnarinnar

Stærsti heilbrigðisvandi 21.aldarninnar!

Meðvirkni er sjúkleiki sem tærir upp sál okkar. Hann hefur áhrif á allt okkar líf, fjölskyldur okkar, börn, vini, skyldmenni; fyrirtæki okkar og frama; heilsu og andlegan þroska. Hann er hamlandi og ómeðhöndlaður hefur hann eyðileggjandi áhrif á okkur sjálf og aðra enn frekar. Mörg okkar enda í þeirri aðstöðu að þurfa að leita til annarra eftir hjálp.

Meðvirkni: Háttarlag þar sem manneskja tekur ábyrgð á gjörðum annarra og hjálpar viðkomandi að forðast það að takast á við vandamálið á beinan hátt, gert til að viðhalda stöðugleika í samskiptum fjölskyldunnar. Meðvirkni byrjar sem eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Skilgreining á meðvirkni: Samansafn viðhorfa, viðbragða og tilfinninga, sem gera lífið sáraukafullt. Meðvirkni einkennir þá sem eru í tilfinningarsambandi við áfengissjúkling, fjárhættuspilara, ofátsfíkil, glæpamenn, kynlífsfíkil, uppreisnargjarnan táning, taugaveiklað foreldri, annan meðvirkil eða einhver blanda af ofanskráðu. Meðvirkur einstaklingur hefur lært ákveðið hegðunarmynstur og aðlagað sig að þeim aðstæðum sem hann býr við. Með því t.d. að taka ekki ábyrgð á ástandinu og koma sér út úr sjúklegum aðstæðum heldur aðlagar hann sig að þeim. Meðvirknin er í raun leið til að skilgreina sig í gegnum aðra.

Ef til vill kannast þú við þessar hugsanir…

“Ef hann/hún breyttist myndi allt vera í lagi.”
“Ég ræð ekki við þennan sársauka, þetta fólk og þessar aðstæður.”
“Það er allt mér að kenna.”
“Ég er alltaf að lenda í sömu slæmu samböndunum.”
“Ég finn fyrir tómleika og finnst ég vera týnd/ur.”
“Hver er ég?”
“Hvað er eiginlega að mér?”

Einkenni meðvirkni. (Tekið af heimasíðu Coda samtakanna www.coda.is)

Afneitun:

Ég á erfitt með að gera mér grein fyrir því hvernig mér líður.
Ég geri lítið úr, breyti eða afneita því hvernig mér líður.
Mér finnst ég algjörlega óeigingjarn og einarðlega helgaður velferð annarra.
Lítil sjálfsvirðing:

Ég á erfitt með að taka ákvarðanir.
Ég dæmi allt sem ég hugsa, segi og geri harðlega og finnst það aldrei nógu gott.
Ég fer hjá mér þegar ég fæ viðurkenningu, hrós eða gjafir.
Ég bið aðra ekki um að mæta þörfum mínum eða þrám.
Ég tek álit annarra á hugsunum mínum, tilfinningum og hegðun fram yfir mitt eigið.
Mér finnst ég ekki vera manneskja sem hægt er að elska og virða.
Undanlátssemi:

Ég breyti gildum mínum og heilindum til þess að forðast höfnun eða reiði annara.
Ég er næmur fyrir því hvernig öðrum líður og mér líður eins og þeim.
Ég er fram úr hófi trúr fólki og kem mér því ekki nógu fljótt úr skaðlegum aðstæðum.
Ég met skoðanir og tilfinningar annarra meir en mínar eigin og er hræddur við að láta álit mitt í ljós ef ég er ósammála einhverju.
Ég set áhugamál mín og tómstundir til hliðar til þess að gera það sem aðrir vilja.
Ég sætti mig við kynlíf þegar ég vil ást.
Stjórnsemi:

Mér finnst annað fólk ófært um að sjá um sig sjálft.
Ég reyni að sannfæra aðra um það hvað þeim “á” að finnast og hvernig þeim líður í „raun og veru“.
Ég fyllist gremju þegar aðrir leyfa mér ekki að hjálpa sér.
Ég gef öðrum ráð og leiðbeiningar óspurður.
Ég helli gjöfum og greiðum yfir þá sem mér þykir vænt um.
Ég nota kynlíf til þess að öðlast viðurkenningu.
Fólk verður að þurfa á mér að halda til þess að ég geti átt í sambandi við það.
Það sem fær okkur til að leita aðstoðar eru áföll eins og hjónaskilnaður, sambandsslit, fangelsisvist, sjúkdómar eða sjálfsmorðstilraun. Sum okkar eru þreytt, örvæntingarfull eða brunnin upp. Við þráum breytingu og það strax. Við viljum losna við eymdina. Okkur langar til að vera ánægð með sjálf okkur og lífsfyllingu. Við viljum heilbrigð og farsæl sambönd.
Ef þú kannast við einhverja þessara hugsana, þá ert þú ekki ein/n. Mörg okkar höfum upplifað mikla depurð, kvíða, örvæntingu og þunglyndi og við höfum breytt um stefnu, leitað hvert til annars og til æðri máttar – til að öðlast andlegt heilbrigði.

Meðvirkni er sennilega stærsta heilbrigðisvandamál sögunnar ef marka má Bandarískar tölur þar sem rannsóknir sýna að um 18% fullorðinna Bandaríkjamanna séu háðir áfengi og aðrar tölur segja það að í kring um hvern alkóhólista eru að meðaltali 4 aðstandendur sem skaðast að einhverju leiti vegna áhrifa fíkilsins. Ef þetta er reiknað beint út þá erum við að tala um 72% landsmanna. En hugsanlega er það orðum ofaukið allavega hér á landi þar sem sami aðstandandir er hugsanlega í kringum fleiri en einn alkóhólista. En þó svo að vandamálið sé um 45 til 50% þá er það algjörlega svakalegt. Hefur þú búið í lengri eða skemmri tíma með einhverjum sem hefur átt erfitt? Þarft þú á stuðningi að halda?

Lausnin er til staðar fyrir þig!


Meðvirkt samfélag sem þarf bráðameðferð!!!

Enn heldur hrunadansinn áfram.  Skýrsla Rannsóknarnefndar gladdi mig mikið.  Skýr, bein og beyglulaus talar hún til mín á venjulegu skiljanlegu máli.

Hélt eitt lítið ör smátt augnablik að eitthvað hefði breyst en svo var rýnt í skýrsluna.  Og auðvitað er fólk eins og það var hvað ætti að gerast á meðan þögn ríkti og allir biðu?  Svör seðlabankastjóra eru bara eðlilegt framhald af fyrri yfirlýsingum hans.  Þó er magnað að aðeins tveir af þremur nefndarmönnum reynast vanhæfir.  Vænisýki er þegar einstaklingur heldur að allt snúist aðeins um sig og sína persónu.  Ranghugmyndir, kvíði og ótti er einkennandi fyrir vænisjúka einstaklinga sem leyna þessu oft með hroka og yfirlæti. 

Mér virðist sem ekki aðeins seðlabankastjóri sé haldinn þessum einkennum heldur allur sjálfstæðisflokkurinn.  Fyrrverandi formaður Geir Haarde hljómar eins og fyrir rúmu ári síðan og eins og hann og flokkurinn hafi bara verið í löngu fríi árin fyrir hrun!  

Morgunblaðið einblínir að sjálfsögðu á ábyrgð bankanna.  En gleymir að nær öllu leyti hverjir undirbjuggu jarðveginn og hverjir áttu að hafa eftirlit með bönkunum.  Gleymir hvernig hugsaða dreifða eignarhaldið á bönkunum fór í einn kjölfestueigenda og þaðan í bara einn eiganda.  Og það undir þeirra umsjá sem þá voru við völd á Alþingi og sátu í ríkisstjórn.

Að engin af nær 150 viðmælendum Rannsóknarnefndarinnar viðurkenndu ábyrgð kemur ekki á óvart. Það voru þau sem ekki var talað við sem báru ábyrgðina eða hvað?

Neikvæð stjórnun er þegar við gefum okkur leyfi til að ráða og ákveða líf og raunveruleika annarra til að viðhalda eigin vellíðan og sjálfstraust.  

Að forðast raunveruleikann með því neikvæðri stjórnun og fá útrás fyrir lélegu sjálfstrausti í valdafíkn, eyðslu, áhættuhegðun eru leiðir til að sjá ekki raunveruleikann og forðast ábyrgð.

Allt er þetta sterk vísbending um meðvirkni á háu stígi. Meðvirkur einstaklingur hefur lært ákveðið hegðunarmynstur og aðlagað sig að þeim aðstæðum sem hann býr við.  Með því t.d. að taka ekki ábyrgð á ástandinu og koma sér út úr sjúklegum aðstæðum heldur aðlagar hann sig að þeim.   Meðvirknin er í raun leið til að skilgreina sig í gegnum aðra.

Er þetta lýsing á ríkistjórnir síðustu áratuga?  Er þetta lýsing á hegðun stjórnenda bankanna? Er þetta lýsing á hegðun okkar sem þjóð?

Meðvirkni er sjúkleiki sem tærir upp sál okkar. Hann hefur áhrif á allt okkar líf, fjölskyldur okkar, börn, vini, skyldmenni; fyrirtæki okkar og frama; heilsu og andlegan þroska.  Hann er hamlandi og ómeðhöndlaður hefur hann eyðileggjandi áhrif á okkur sjálf og aðra enn frekar.

Er þetta lýsing á stöðu okkar í dag? Og ef svo er hvernig leitum við lausna og finnum leiðir út úr þessu ástandi?  Hvernig finnum við leiðir til að fara frá þessari lærðu hegðun og sameinast um nýjar farsælar leiðir?  Eitt er ljóst við gerum það ekki án þess að taka ábyrgð á fortíð okkar og hegðun i dag.  Lærum af fortiðinni og leggjum hana til hliðar og sameinumst um nýja leið að ferskri hamingju.


Stýrivextir, áhrifasvæði okkar og kærleikslíf í upplausn.

Vegvísir fyrir daginn í dag.

Gerir þú þér grein fyrir að allt sem þú gerir, hvernig þú lifir og hugsar, getur verið til góðs eða ills fyrir heiminn. Hættu að láta draga þig inn í hringiðu óróa, glundroða, niðurrifs og eyðileggingar.

Byrjaðu nú þegar að einbeita þér að dásemdum og fegurð heimsins i kringum þig, þakkaðu fyrir allt.

Blessaðu alla sem þú ert í snertingu við. Neitaðu að sjá það versta í fólki, atburðum eða ástandi, leitaðu alltaf eftir því besta. Það á ekkert skylt við strútinn sem stingur höfðinu í sandinn og neitar að horfast í augu við raunveruleika heimsins.

Það felur aðeins í sér að leita skuli eftir og einbeita sér að því besta í öllu og öllum. Örlítill heimur er innra með þér, Þegar þar er friður og jafnvægi, kærleikur og skilningur, alveg inn í dýpstu vitund í litla heiminum þínum, mun það speglast í hið ytra, í umhverfi þínu.

Þegar þú nærð því ertu byrjaður að leggja þitt af mörkum til hins viðtæka heildarástands heimsins.

Eileen Caddy.

Erum við að týnast í ytri hlutum? Lifum við í umhverfi þar sem orð og samskiptaleysi stjórna líðan okkarog viljum við gera eitthvað í því, breyta einhverju? Dýrmæt og áhrifarík orð eru sögð og samskiptileysi hefur ríkt sem ekki verður aftur tekið?

Ég er orðinn ótrúlega þreyttur á umræðunni, við erum eins og inni í miðju hverfilbyls þar sem logn ríkir og enginn vill eða þorir að taka skref. Því við verðum stíga inn í storminn og taka ákveðinn tíma í að leyfa storminum að geysa. Öðruvísi verður ekki nýja Ísland byggt upp úr rústum þessara erfiðu fortíðar gærdags okkar.

Innra með okkur byr sannleikurinn fyrir hvert og eitt okkar. Í honum verður heildar sannleikurinn stór og mektugur. Látum ekki alla okkar orku í það sem er utan við okkur og utan okkar áhrifamáttar heldur leitum inn á við í eigin dásamlegu kyrrð. Hér getum við haft áhrif og héðan úr kyrðinni getum við sameiginlega haft óendanlega stór áhrif.

Kærleikurinn er lykillinn að öllum lokuðum dyrum. Lærum að nota lykilinn uns allar dyr hafa verið opnaðar. Opnum augu okkar og sjáum sameiginlega þörf okkar og svörum henni.

Höf:
Percy B. Stefánsson


Meðvirkni í Skálholti

Uppbókað á Meðvirkninámskeiðið í mars en hægt að skrá sig í næstu námskeið þar á eftir.

Dagana 22.-26. mars nk. verður haldið námskeið í Skálholti fyrir þá sem vilja takast á við meðvikni í lífi sínu.

Leiðbeinendur á námskeiðinu eru séra Anna Sigríður Pálsdóttir prestur í Dómkirkjunni, Margrét Scheving félagsráðgjafi, Kjartan Pálmason guðfræðingur og ráðgjafi og Percy B. Stefánsson ráðgjafi.

Námskeiðið hefst á hádegi á mánudegi og því lýkur um kaffileitið á föstudegi. Hámarksfjöldi þátttakenda er 18 manns og er þetta í annað sinn sem námskeið er haldið hér á landi en Sr. Anna Sigríður hefur haldið sambærilegt námskeið í Svíþjóð síðastliðin 16. ár.

Fyrsta meðvirkninámskeiðið var haldið í nóvember 2009 og komust færri að en vildu.
Námseiðið sem haldið verðu 22. mars er nú þegar uppbókað og er nú þegar hafin skráning á næstu námskeið sem haldin verða 16.-20. ágúst og 8.- 12. nóvember á því herrans ári 2010. Hægt er að skrá sig á www.skalholt.is með því að vísa til þess námskeiðs sem þið hafið áhuga á í skilaboðadálkinum í skráningarforminu.

Að auki vil ég minna á að vikuleg hópavinna fyrir þá sem vilja vinna í meðvirkninni sinni eru í fullum gangi. Skráning þá hópar er á slóð: http://www.lausnin.is/index.php?categoryid=5

Bestu kveðjur,

Kjartan Pálmson
Ráðgjafi Lausnarinnar


Alvarlegur og falinn heilbrigðisvandi

Meðvirkni hefur áhrif á allt líf okkar. En engin talar um meðvirkni. Engin vill opna augun og sjá “lífið” og sjá hvernig meðvirkni heftir jafnvel eigið líf. Ómeðvitað stundum meðvitað er allt gert til að viðhalda “stöðugleika” það má ekkert breytast.

En hvað kostar það okkur að halda óbreyttri stefnu sama hvað gerist og hvert stefnir? Hvað kostar að vera sjón- og heyrnarlaus til að forðast eigin tilfinningar? Er núverandi ástand á Íslandi tilkomið vegna meðvirkni?
Eitt einkenni meðvirkni er “Ég breyti gildum mínum og heilindum til þess að forðast höfnun eða reiði annarra.” Kannast einhver við þessa fullyrðingu? Og ef svo er, hver vill standa upp og segja að það er “bleikur fíll” í stofunni? Hvort sem stofan er heima, í vinnunni á stjórnarheimilinu eða Alþingi?

Áfengis og vímuefnaneysla er án efa eitt stærsta heilbrigðisvandamál okkar Íslendinga. Samantekt Hagstofunnar sýnir að það megi áætla að rúmlega einn einstaklingur látist í viku hverri af völdum beinnar eða óbeinnar neyslu. Annað sem er ekki síður alvarlegt er að samkvæmt Bandarískum tölum þá er um 18% Bandaríkjamanna 12 ára og eldri sem drekka óhóflega. Enn aðrar tölur segja að í kring um hvern alkóhólista séu að meðaltali fjórir aðstandendur sem skaðast að einhverju leiti af fíklinum. Ef þessar tölur eru yfirfærðar á Íslenskan veruleika þá erum við að tala um rúmlega 70% hlutfall aðstandanda/meðvirkra hér á landi. Ef þetta er raunin þá er stærri hluti þjóðarinnar haldinn meðvirkni á einhverju stígi. Sannleikann getum við sjálf séð ef við lítum í eigin barm og kringum okkur. Hvar sem er heima, í vinnu, hjá vinum og fleiri stöðum!

Hver kannast ekki við eitthvað af eftirfarandi lýsingum:
• Mér finnst ég algjörlega óeigingjarn og einarðlega helgaður velferð
annarra.
• Ég er fram úr hófi trúr fólki og kem mér því ekki nógu fljótt úr skaðlegum
aðstæðum.
• Ég gef öðrum ráð og leiðbeiningar óspurður.
• Ég á erfitt með að taka ákvarðanir.

Meðvirkni er sjúkdómur sem tærir upp sál okkar. Hann hefur áhrif á allt okkar líf, fjölskyldur okkar, börn, vini, skyldmenni, fyrirtæki,frama, heilsu og andlegan þroska. Hann er hamlandi og ómeðhöndlaður hefur hann eyðileggjandi áhrif á okkur sjálf og aðra enn frekar. Mörg okkar enda í þeirri aðstöðu að þurfa að leita til annarra eftir hjálp. Meðvirkni, tærir sálina oft án þess að við sjáum það sjálf. Meðvirkni er háttarlag þar sem manneskja tekur ábyrgð á gjörðum annarra og hjálpar viðkomandi að forðast það að takast á við vandamálið á beinan hátt, gert til að viðhalda stöðugleika í samskiptum fjölskyldunnar. Meðvirkni byrjar sem eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Í meðvirkni missum við af eigin lifi, lifum fyrir aðra og hvað þeim finnst um okkur. Við lifum í stöðugri skömm og sektarkennd.

Engin meðferð er til á Íslandi fyrir meðvirka einstaklinga. Langtíma eftirfylgni og stuðning vantar. Opinber viðkenning á meðvirkni sem skaðandi og eyðileggjandi hegðun fyrir einstaklinga, fjölskyldur og þjóð vantar. Við erum inní miðju hvirfilbylsins og sjáum ekki eyðilegginguna utan við okkur.

Við sjáum ekki að meðvirkni er stærsta heilbrigðisvandamál Íslensks samfélags í dag og enginn þorir að viðurkenna það því þá þarf viðkomandi að horfa í eigin barm.

Við viljum ekki sjá þá sem þurfa og vilja þiggja þessa hjálp. Þeir hafa í fá hús að vernda. Því óttinn hjá þeim sem hafa völdin, óttinn við að líta í eigin barm og viðurkenna að við erum öll mannleg með kosti og galla eins og aðrir erum ekki meiri eða minni. Óttinn við að missa grímuna, missa hina ímynduðu fullkomnun er svo mikill að þeir velja að sjá ekki þann gríðarstóra vanda sem heltekur samfélagið okkar. Vandinn er án nokkurs vafa gríðarlega stór og til að sporna við honum þarf fyrst og fremst að viðurkenna vandann. Við þurfum að vera tilbúin að skoða okkur sjálf, vera tilbúin í að laga þá bresti sem há okkur hvert og eitt. Engin er mikilvægastur, engin skoðun réttari en önnur aðeins sameiginlegir hagsmunir og löngun í gott líf getur leitt okkur áfram.

Mikilvægt er að við spyrjum okkur eftirfarandi spurninga.
Er lífið ekki til þess að lifa því lifandi og í hamingjusemi? Vantar eitthvað upp á það hjá mér? Hvað get ég gert til að breyta núverandi ástandi mínu og samfélagsins?

Grein birtist í Morgunblaðinu 16.des 2009
Höfundar:
Kjartan Pálmason
Percy B. Stefánsson


Að ræna aðra þroska

Hvað er að taka ábyrgð af öðrum og af hverju er það slæmt? Við sem erum fullorðin búum öll yfir ákveðinni reynslu, þekkingu og þroska. Reynsla okkar er byggð á upplifunum, einhverju sem við höfum tekist á við, þurft að læra, fengið að upplifa. Þekkingin er svipuð, hún kemur einhverstaðar frá, er eitthvað sem við geymum með okkur. Þroskinn verður til af reynslu, þekkingu og upplifunum sem við höfum öðlast á lífleiðinni. Oft er talað um að þeir sem mestan þroska hafa eru þeir sem mestar raunir hafa upplifað.

Að taka ábyrgð af öðrum er í raun að hindra viðkomandi í því að ná sér í eigin reynslu, þekkingu, upplifun og þroska. Við skulum nefna nokkur dæmi: Ef við t.d. vekjum alltaf unglingana okkar á morgnana til að fara í skóla af ótta við að þeir myndu ekki vakna annars, þá erum við að hindra þá í því að læra að vakna sjálf/ur á morgnana. Þetta er kannski eðlileg aðgerð ef um er að ræða ósjálfbjarga barn eða andlega fatlaðan einstakling en ekki stálpaðan ungling. Hvenær á unglingurinn að læra að vakna sjálfur ef við gerum það alltaf fyrir hann?

Hugsum okkur foreldri sem hefur tekið að sér fjármál unglingsins. Allar tekjur unglingsins fara inn á reikning sem foreldrið á eða hefur aðgang að. Foreldrið úthlutar unglingnum hluta af peningnum og leggur restina inn á söfnunarreikning. Þegar unglingurinn tekur síðan ákvörðun að fara að heiman, þá fær hann umsjón yfir reikning með jafnvel þó nokkurri upphæð sem foreldrið hefur safnað. Annaðhvort eyðir unglingurinn peningnum í eitthvað ónytsamt, nytsamt eða geymir hann áfram. Hann fer að búa sjálfur og fær nú laun inn á sinn reikning. Þar sem hann er vanur að eyða peningunum sem hann fær í hendurnar, ekki vanur að leggja neitt til hliðar, þá eru miklar líkur á að hann eyði öllum laununum nokkuð fljótt. Á þessum tíma er unglingurinn kominn með meiri ábyrgð á hendur, eins og að borga leigu, kaupa mat, jafnvel vera í sambúð og því getur skapast heilmikið vandamál peningalega hjá viðkomandi.

Foreldri kaupir áfengi fyrir unglinginn sem ekki er orðinn nógu gamall til að kaupa það sjálfur. Foreldrið notar jafnvel þá réttlætingu að ef það kaupir það ekki þá mun unglingurinn kannski kaupa landa sem gæti reynst hættulegur, vera handtekinn við að biðja aðra að kaupa fyrir sig o.s.frv. Með gjörðum sínum er foreldrið með þessu að samþykkja drykkju unglingsins þó svo að lögin banni slíkt. Foreldrið er einnig að sýna unglingum að það sé allt í lagi endrum og eins að brjóta lög. Foreldrið hindrar unglinginn í að bera ábyrgð á gjörðum sínum og taka afleiðungum gjörða sinna. Foreldrið er að taka ábyrgðina á sig ef eitthvað gerist meðan unglingurinn er að drekka. Foreldrið er að auka líkurnar á því að unglingurinn geti stórskaðast andlega, líkamlega og félagslega með því að byrja drykkju of snemma.

Mín reynsla er sú að foreldrar láta of oft undan þrýstingi samfélagsins. Unglingarnir koma heim segja að vinir sínir megi vera þetta lengi úti og foreldrar þeirra leyfi þeim þetta og hitt. Auðvitað viljum við ekki vera vondir foreldrar svo við látum undan. En hvor leiðin er verri fyrir unglinginn að hann fái það sem hann vill eða að foreldrarnir setji reglur sem þau vita að eru góðar. Hverjir eru með meiri þroska og meiri þekkingu, foreldrar eða unglingur?
Hver á að stjórna heimilinu unglingurinn eða foreldrið? Hver á að ala upp unglinginn, unglingurinn sjálfur eða foreldrið? Við sjálf sem foreldrar eða makar við vitum að með því að takast á við vandamálin þá öðlumst við reynslu. Leyfum unga fólkinu að takast á við sín mál. Styðjum þau en gerum ekki hlutina fyrir þau. Hjálpum þeim að hjálpa sér sjálfum.

Höfundur:
Kjartan Pálmason
Ráðgjafi Lausnarinnar
www.lausnin.is


Ert þú meðvirk/ur?

Meðvirkni er sjúkleiki sem tærir upp sál okkar. Hann hefur áhrif á allt okkar líf, fjölskyldur okkar, börn, vini, skyldmenni; fyrirtæki okkar og frama; heilsu og andlegan þroska. Hann er hamlandi og ómeðhöndlaður hefur hann eyðileggjandi áhrif á okkur sjálf og aðra enn frekar. Mörg okkar enda í þeirri aðstöðu að þurfa að leita til annarra eftir hjálp.

Meðvirkni: Háttarlag þar sem manneskja tekur ábyrgð á gjörðum annarra og hjálpar viðkomandi að forðast það að takast á við vandamálið á beinan hátt, gert til að viðhalda stöðugleika í samskiptum fjölskyldunnar.
Meðvirkni byrjar sem eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Skilgreining á meðvirkni: Samansafn viðhorfa, viðbragða og tilfinninga, sem gera lífið sáraukafullt. Meðvirkni einkennir þá sem eru í tilfinningarsambandi við áfengissjúkling, fjárhættuspilara, ofátsfíkil, glæpamenn, kynlífsfíkil, uppreisnargjarnan táning, taugaveiklað foreldri, annan meðvirkil eða einhver blanda af ofanskráðu. Meðvirkur einstaklingur hefur lært ákveðið hegðunarmynstur og aðlagað sig að þeim aðstæðum sem hann býr við. Með því t.d. að taka ekki ábyrgð á ástandinu og koma sér út úr sjúklegum aðstæðum heldur aðlagar hann sig að þeim. Meðvirknin er í raun leið til að skilgreina sig í gegnum aðra.

Ef til vill kannast þú við þessar hugsanir...
“Ef hann/hún breyttist myndi allt vera í lagi.” 
“Ég ræð ekki við þennan sársauka, þetta fólk og þessar aðstæður.”
“Það er allt mér að kenna.”
“Ég er alltaf að lenda í sömu slæmu samböndunum.”
“Ég finn fyrir tómleika og finnst ég vera týnd/ur.”
“Hver er ég?”
“Hvað er eiginlega að mér?”

Einkenni meðvirkni. (Tekið af heimasíðu Coda samtakanna www.coda.is)

Afneitun:
• Ég á erfitt með að gera mér grein fyrir því hvernig mér líður.
• Ég geri lítið úr, breyti eða afneita því hvernig mér líður.
• Mér finnst ég algjörlega óeigingjarn og einarðlega helgaður velferð annarra. Lítil sjálfsvirðing:
•Ég á erfitt með að taka ákvarðanir.
•Ég dæmi allt sem ég hugsa, segi og geri harðlega og finnst það aldrei nógu gott.
•Ég fer hjá mér þegar ég fæ viðurkenningu, hrós eða gjafir.
•Ég bið aðra ekki um að mæta þörfum mínum eða þrám.
•Ég tek álit annarra á hugsunum mínum, tilfinningum og hegðun fram yfir mitt eigið.
•Mér finnst ég ekki vera manneskja sem hægt er að elska og virða. Undanlátssemi:
•Ég breyti gildum mínum og heilindum til þess að forðast höfnun eða reiði annara.
•Ég er næmur fyrir því hvernig öðrum líður og mér líður eins og þeim.
•Ég er fram úr hófi trúr fólki og kem mér því ekki nógu fljótt úr skaðlegum aðstæðum.
•Ég met skoðanir og tilfinningar annarra meir en mínar eigin og er hræddur við að láta álit mitt í ljós ef ég er ósammála einhverju.
•Ég set áhugamál mín og tómstundir til hliðar til þess að gera það sem aðrir vilja.
•Ég sætti mig við kynlíf þegar ég vil ást. Stjórnsemi:
•Mér finnst annað fólk ófært um að sjá um sig sjálft.
•Ég reyni að sannfæra aðra um það hvað þeim “á” að finnast og hvernig þeim líður í „raun og veru“. •Ég fyllist gremju þegar aðrir leyfa mér ekki að hjálpa sér.
•Ég gef öðrum ráð og leiðbeiningar óspurður.
•Ég helli gjöfum og greiðum yfir þá sem mér þykir vænt um.
•Ég nota kynlíf til þess að öðlast viðurkenningu.
•Fólk verður að þurfa á mér að halda til þess að ég geti átt í sambandi við það.

Það sem fær okkur til að leita aðstoðar eru áföll eins og hjónaskilnaður, sambandsslit, fangelsisvist, sjúkdómar eða sjálfsmorðstilraun. Sum okkar eru þreytt, örvæntingarfull eða brunnin upp. Við þráum breytingu og það strax. Við viljum losna við eymdina. Okkur langar til að vera ánægð með sjálf okkur og lífsfyllingu. Við viljum heilbrigð og farsæl sambönd. Ef þú kannast við einhverja þessara hugsana, þá ert þú ekki ein/n. Mörg okkar höfum upplifað mikla depurð, kvíða, örvæntingu og þunglyndi og við höfum breytt um stefnu, leitað hvert til annars og til æðri máttar – til að öðlast andlegt heilbrigði.

Meðvirkni er sennilega stærsta heilbrigðisvandamál sögunnar ef marka má Bandarískar tölur þar sem rannsóknir sýna að um 18% fullorðinna Bandaríkjamanna séu háðir áfengi og aðrar tölur segja það að í kring um hvern alkóhólista eru að meðaltali 4 aðstandendur sem skaðast að einhverju leiti vegna áhrifa fíkilsins. Ef þetta er reiknað beint út þá erum við að tala um 72% landsmanna. En hugsanlega er það orðum ofaukið allavega hér á landi þar sem sami aðstandandir er hugsanlega í kringum fleiri en einn alkóhólista. En þó svo að vandamálið sé um 45 til 50% þá er það algjörlega svakalegt. Hefur þú búið í lengri eða skemmri tíma með einhverjum sem hefur átt erfitt?

Þarft þú á stuðningi að halda? Lausnin er til staðar!

Kjartan Pálmason
Ráðgjafi Lausnarinnar
www.lausnin.is


Næsta síða »

Efni frá

Lausnin baráttusamtök gegn meðvirkni
Lausnin baráttusamtök gegn meðvirkni

Lausnin er grasrótarsamtök sem hefur það að markmiði að berjast gegn meðvirkni og þeim afleingum sem sá sjúkleiki veldur einstaklingum, s.s. hinum ýmsu fíknum, vanlíðan, lágu sjálfsmati, skömm og sektarkennd o.s.frv.

Höfundar greina:

Kjartan Pálmason
Percy B. Stefánsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband