27.12.2009 | 11:16
Að ræna aðra þroska
Hvað er að taka ábyrgð af öðrum og af hverju er það slæmt? Við sem erum fullorðin búum öll yfir ákveðinni reynslu, þekkingu og þroska. Reynsla okkar er byggð á upplifunum, einhverju sem við höfum tekist á við, þurft að læra, fengið að upplifa. Þekkingin er svipuð, hún kemur einhverstaðar frá, er eitthvað sem við geymum með okkur. Þroskinn verður til af reynslu, þekkingu og upplifunum sem við höfum öðlast á lífleiðinni. Oft er talað um að þeir sem mestan þroska hafa eru þeir sem mestar raunir hafa upplifað.
Að taka ábyrgð af öðrum er í raun að hindra viðkomandi í því að ná sér í eigin reynslu, þekkingu, upplifun og þroska. Við skulum nefna nokkur dæmi: Ef við t.d. vekjum alltaf unglingana okkar á morgnana til að fara í skóla af ótta við að þeir myndu ekki vakna annars, þá erum við að hindra þá í því að læra að vakna sjálf/ur á morgnana. Þetta er kannski eðlileg aðgerð ef um er að ræða ósjálfbjarga barn eða andlega fatlaðan einstakling en ekki stálpaðan ungling. Hvenær á unglingurinn að læra að vakna sjálfur ef við gerum það alltaf fyrir hann?
Hugsum okkur foreldri sem hefur tekið að sér fjármál unglingsins. Allar tekjur unglingsins fara inn á reikning sem foreldrið á eða hefur aðgang að. Foreldrið úthlutar unglingnum hluta af peningnum og leggur restina inn á söfnunarreikning. Þegar unglingurinn tekur síðan ákvörðun að fara að heiman, þá fær hann umsjón yfir reikning með jafnvel þó nokkurri upphæð sem foreldrið hefur safnað. Annaðhvort eyðir unglingurinn peningnum í eitthvað ónytsamt, nytsamt eða geymir hann áfram. Hann fer að búa sjálfur og fær nú laun inn á sinn reikning. Þar sem hann er vanur að eyða peningunum sem hann fær í hendurnar, ekki vanur að leggja neitt til hliðar, þá eru miklar líkur á að hann eyði öllum laununum nokkuð fljótt. Á þessum tíma er unglingurinn kominn með meiri ábyrgð á hendur, eins og að borga leigu, kaupa mat, jafnvel vera í sambúð og því getur skapast heilmikið vandamál peningalega hjá viðkomandi.
Foreldri kaupir áfengi fyrir unglinginn sem ekki er orðinn nógu gamall til að kaupa það sjálfur. Foreldrið notar jafnvel þá réttlætingu að ef það kaupir það ekki þá mun unglingurinn kannski kaupa landa sem gæti reynst hættulegur, vera handtekinn við að biðja aðra að kaupa fyrir sig o.s.frv. Með gjörðum sínum er foreldrið með þessu að samþykkja drykkju unglingsins þó svo að lögin banni slíkt. Foreldrið er einnig að sýna unglingum að það sé allt í lagi endrum og eins að brjóta lög. Foreldrið hindrar unglinginn í að bera ábyrgð á gjörðum sínum og taka afleiðungum gjörða sinna. Foreldrið er að taka ábyrgðina á sig ef eitthvað gerist meðan unglingurinn er að drekka. Foreldrið er að auka líkurnar á því að unglingurinn geti stórskaðast andlega, líkamlega og félagslega með því að byrja drykkju of snemma.
Mín reynsla er sú að foreldrar láta of oft undan þrýstingi samfélagsins. Unglingarnir koma heim segja að vinir sínir megi vera þetta lengi úti og foreldrar þeirra leyfi þeim þetta og hitt. Auðvitað viljum við ekki vera vondir foreldrar svo við látum undan. En hvor leiðin er verri fyrir unglinginn að hann fái það sem hann vill eða að foreldrarnir setji reglur sem þau vita að eru góðar. Hverjir eru með meiri þroska og meiri þekkingu, foreldrar eða unglingur?
Hver á að stjórna heimilinu unglingurinn eða foreldrið? Hver á að ala upp unglinginn, unglingurinn sjálfur eða foreldrið? Við sjálf sem foreldrar eða makar við vitum að með því að takast á við vandamálin þá öðlumst við reynslu. Leyfum unga fólkinu að takast á við sín mál. Styðjum þau en gerum ekki hlutina fyrir þau. Hjálpum þeim að hjálpa sér sjálfum.
Höfundur:
Kjartan Pálmason
Ráðgjafi Lausnarinnar
www.lausnin.is
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2009 | 10:08
Ert þú meðvirk/ur?
Meðvirkni er sjúkleiki sem tærir upp sál okkar. Hann hefur áhrif á allt okkar líf, fjölskyldur okkar, börn, vini, skyldmenni; fyrirtæki okkar og frama; heilsu og andlegan þroska. Hann er hamlandi og ómeðhöndlaður hefur hann eyðileggjandi áhrif á okkur sjálf og aðra enn frekar. Mörg okkar enda í þeirri aðstöðu að þurfa að leita til annarra eftir hjálp.
Meðvirkni: Háttarlag þar sem manneskja tekur ábyrgð á gjörðum annarra og hjálpar viðkomandi að forðast það að takast á við vandamálið á beinan hátt, gert til að viðhalda stöðugleika í samskiptum fjölskyldunnar.
Meðvirkni byrjar sem eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Skilgreining á meðvirkni: Samansafn viðhorfa, viðbragða og tilfinninga, sem gera lífið sáraukafullt. Meðvirkni einkennir þá sem eru í tilfinningarsambandi við áfengissjúkling, fjárhættuspilara, ofátsfíkil, glæpamenn, kynlífsfíkil, uppreisnargjarnan táning, taugaveiklað foreldri, annan meðvirkil eða einhver blanda af ofanskráðu. Meðvirkur einstaklingur hefur lært ákveðið hegðunarmynstur og aðlagað sig að þeim aðstæðum sem hann býr við. Með því t.d. að taka ekki ábyrgð á ástandinu og koma sér út úr sjúklegum aðstæðum heldur aðlagar hann sig að þeim. Meðvirknin er í raun leið til að skilgreina sig í gegnum aðra.
Ef til vill kannast þú við þessar hugsanir...
“Ef hann/hún breyttist myndi allt vera í lagi.”
“Ég ræð ekki við þennan sársauka, þetta fólk og þessar aðstæður.”
“Það er allt mér að kenna.”
“Ég er alltaf að lenda í sömu slæmu samböndunum.”
“Ég finn fyrir tómleika og finnst ég vera týnd/ur.”
“Hver er ég?”
“Hvað er eiginlega að mér?”
Einkenni meðvirkni. (Tekið af heimasíðu Coda samtakanna www.coda.is)
Afneitun:
• Ég á erfitt með að gera mér grein fyrir því hvernig mér líður.
• Ég geri lítið úr, breyti eða afneita því hvernig mér líður.
• Mér finnst ég algjörlega óeigingjarn og einarðlega helgaður velferð annarra. Lítil sjálfsvirðing:
•Ég á erfitt með að taka ákvarðanir.
•Ég dæmi allt sem ég hugsa, segi og geri harðlega og finnst það aldrei nógu gott.
•Ég fer hjá mér þegar ég fæ viðurkenningu, hrós eða gjafir.
•Ég bið aðra ekki um að mæta þörfum mínum eða þrám.
•Ég tek álit annarra á hugsunum mínum, tilfinningum og hegðun fram yfir mitt eigið.
•Mér finnst ég ekki vera manneskja sem hægt er að elska og virða. Undanlátssemi:
•Ég breyti gildum mínum og heilindum til þess að forðast höfnun eða reiði annara.
•Ég er næmur fyrir því hvernig öðrum líður og mér líður eins og þeim.
•Ég er fram úr hófi trúr fólki og kem mér því ekki nógu fljótt úr skaðlegum aðstæðum.
•Ég met skoðanir og tilfinningar annarra meir en mínar eigin og er hræddur við að láta álit mitt í ljós ef ég er ósammála einhverju.
•Ég set áhugamál mín og tómstundir til hliðar til þess að gera það sem aðrir vilja.
•Ég sætti mig við kynlíf þegar ég vil ást. Stjórnsemi:
•Mér finnst annað fólk ófært um að sjá um sig sjálft.
•Ég reyni að sannfæra aðra um það hvað þeim “á” að finnast og hvernig þeim líður í „raun og veru“. •Ég fyllist gremju þegar aðrir leyfa mér ekki að hjálpa sér.
•Ég gef öðrum ráð og leiðbeiningar óspurður.
•Ég helli gjöfum og greiðum yfir þá sem mér þykir vænt um.
•Ég nota kynlíf til þess að öðlast viðurkenningu.
•Fólk verður að þurfa á mér að halda til þess að ég geti átt í sambandi við það.
Það sem fær okkur til að leita aðstoðar eru áföll eins og hjónaskilnaður, sambandsslit, fangelsisvist, sjúkdómar eða sjálfsmorðstilraun. Sum okkar eru þreytt, örvæntingarfull eða brunnin upp. Við þráum breytingu og það strax. Við viljum losna við eymdina. Okkur langar til að vera ánægð með sjálf okkur og lífsfyllingu. Við viljum heilbrigð og farsæl sambönd. Ef þú kannast við einhverja þessara hugsana, þá ert þú ekki ein/n. Mörg okkar höfum upplifað mikla depurð, kvíða, örvæntingu og þunglyndi og við höfum breytt um stefnu, leitað hvert til annars og til æðri máttar – til að öðlast andlegt heilbrigði.
Meðvirkni er sennilega stærsta heilbrigðisvandamál sögunnar ef marka má Bandarískar tölur þar sem rannsóknir sýna að um 18% fullorðinna Bandaríkjamanna séu háðir áfengi og aðrar tölur segja það að í kring um hvern alkóhólista eru að meðaltali 4 aðstandendur sem skaðast að einhverju leiti vegna áhrifa fíkilsins. Ef þetta er reiknað beint út þá erum við að tala um 72% landsmanna. En hugsanlega er það orðum ofaukið allavega hér á landi þar sem sami aðstandandir er hugsanlega í kringum fleiri en einn alkóhólista. En þó svo að vandamálið sé um 45 til 50% þá er það algjörlega svakalegt. Hefur þú búið í lengri eða skemmri tíma með einhverjum sem hefur átt erfitt?
Þarft þú á stuðningi að halda? Lausnin er til staðar!
Kjartan Pálmason
Ráðgjafi Lausnarinnar
www.lausnin.is
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2009 | 09:59
Jólahugleiðing
Jólakvíðinn er þó ekki endilega tilkominn vegna þess að við óttumst óraunhæfar kröfur um að allt eigi að vera fínt og okkur sæmandi á yfirborðinu. Heldur ekki síður vegna þess að okkur finnst erfitt að horfast í augu við okkur sjálf. Erfitt að standa með eigin hugmyndum um hvernig við viljum eiga friðsæl jól, hvar og með hverjum. Innri togstreita veldur oft mesta kvíðanum.
Jólin gefa okkur tækifæri til að staldra við, skoða stöðu okkar endurmeta og leggja rækt við það sem er okkur kærast. Vandinn er þó oft allar væntingarnar sem stafa frá óskráðum jólareglum í samfélaginu og fyrirfram ákveðnum hugmyndum okkar um hvað aðrir eru að hugsa og vilja frá okkur. Nokkur eftirfarandi atriða geta auðveldað okkur leiðina í sátt og gegnum aðventuna. Gera fjárhagsáætlun fyrir mánuðinn. Spyrja okkur, hvað líður "mér" vel með? Hvað er nauðsynlegt að gera og hvað er tilbúin nauðsyn? Hvað er eðlilegur kostnaður á jólagjöf miðað við mínar tekjur?
Munum að það að gjalda gjöf með kærleiksríku viðmóti, brosi á förnum vegi, heimsókn eða símhringingu er oft stærra en margur harður pakkinn. Það sem við gerum er oft sýnilegra og áhrifaríkara en það sem við segjum.
Gefum kærleika án ótta um að fá höfnun og elskum án skilyrða.
Percy B. Stefánsson.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar