13.5.2011 | 15:56
Í návist alkóhólista. Reynslusaga
Hugsa oft til Stockhólms og æsku minnar þar. Minnið er gloppótt en margt hlýtur að hafa gerst þessi fyrstu 12 ár mín í Svíþjóð.
Kom í heiminn í miðbæ höfuðborgar Svíþjóðar rétt hjá hverfinu hennar ömmu. Ég er sænskur í eðli mínu eitthvað Stockhólmskt í mér sem ekki fer.
Við gerðum vissulega stutta millilendingu í þekktum síldarbæ á Íslandi á þessum tíma. Komum frá Stockhólmi þrjú og bróðir minn fæddist þar en það var millilending á ferðalagi sem ætlar engan endi að taka.
Bjuggum eftir Siglufjarðardvölina fyrstu árin á þremur stöðum úti þar til gefist var upp og flutt til Íslands. En það tók mörg ár og kostaði margar andvökunætur hjá öllum þar til Íslandsferð var eina leiðin út úr vandræðunum.
Þarna mótaðist ég sem einstaklingur. Lokaðist, já eiginlega er það orðið sem nota má um mig sem barn án þess sem ég sé núna nokkurra einustu tilfinninga. Að vænta einskis var leiðin til að lifa lífið af. Gjördeyfður má segja að ég hafi verið fram yfir fermingu í höfuðborg norðurlands Akureyri.
Bollur, mjólk og sumarbúðir, mjúkt malbik og garðúðar, leikir útí skóginum, snjókast inn um gluggann mikið meira er ekki í minningu minni um þessi ár í Stockhólmi. Afgangurinn er líf í ótta, alltaf að passa mig og aðra, slökkt á minnishlutanum, stöðug ábyrgð á mömmu, og strákunum, lesa í hugsanir og reyna að fyrirbyggjavandræði. Sífelld streita án nokkurrar hvíldar er yfirþyrmandi upplifun mín af þessum árum.
Ætla ekki að reyna að muna eftir neinu sérstöku. Það voru örugglega jól, páskar og afmæli en ég er eins og auð blaðsíða þegar þetta er rætt. Veit samt ekki hvernig mér líður með þetta? Undarlegur tómleiki er þarna, stór hluti lífs míns er týndur og ég veit ekki hvort þetta kemur aftur.
Ég man atvik þar sem pabbi var fullur og með hávaða. Mamma varð að fara og sagði að pabbi léti yngri bræður mína í friði en við yrðum að fara. Svo við gengum út í náttmyrkrið til nágranna að sofa eina og eina nótt. Ég hlustaði á allt og var með í allri ábyrgð og allri angist sem fylgdi þessum flótta frá manni sem ég vissi aldrei hvað myndi gera næst.
Ég var maðurinn í húsinu. Ég bar ábyrgð á að hinum liði vel og væru örugg. Ég upplifði alltaf tómleika ekki neitt aldrei vonbrigði, lifði bara engin von bara að ég ætti að gera þetta augnablik gott og vera í lagi fyrir hin. Get séð það í dag að ég var frystur og í hjúpi frá fæðingu og fram undir fimmtugsaldur.
Harður skrápur myndaðist í kringum mig á fyrstu árum ævi minnar ekkert fór frá mér og ekkert mátti komast inn fyrir og rugla mig.
Ég var í fimm ár í skóla þarna en man ekki einn skóladag! Segi alveg satt ég man ekkert! Í raun skelfilegt en allt er þurrkað út og tómið eitt eftir.
Ég vakti oft sem barn til að fylgjast með hvort pabbi kæmi fullur heim. Þorði ekki að sofna fyrr en ég vissi hvernig ástandið væri. Bræður mínir sofnuðu en ég lá vakandi og hlustaði. Vissi að mamma sat vakandi í eldhúsinu og beið eins og ég. Pabbi var farinn að drekka flesta daga vikunnar og missa vinnu vegna drykkjunnar. En það var eins og það skipti engu máli hann gat engu breytt þrátt fyrir stöðug loforð um annað. Svo kom að því að hann missti vinnuna og við urðum að flytja í litla tveggja herbergja stúdíóíbúð í kjallara í næsta hverfi. Við gátum sem betur fer gengið í sama skóla þetta var aðeins hinum megin við hann.
Þarna var mamma farin að fara að heiman nokkuð oft vegna óláta og drykkju pabba og ég var oftast með á hlaupunum. Þeir yngri sofandi heima! Peninga vantaði oft fyrir mat og ég var að selja flöskur og vinkona mömmu lánaði líka peninga. Vinnan samdi svo við mömmu að hún fékk launin til sín en pabbi fékk bara lítinn hluta eftir þetta. En það var auðvitað ekki nóg! Allt öryggi var farið og öllum leið illa. Allar aðstæður voru hörmulegar og engin kom lengur til okkar nema einn bróðir mömmu sem leit af og til við. Fjölskyldan einangraðist vegna alkóhólísmans og þrátt fyrir vilja margra til að hjálpa dugar ekkert ef alkóhólistinn vill ekkert gera. Man eftir ofsaskapi pabba algjöru stjórnleysi, öskur og hótanir og verst var þegar hann otaði hnífi að okkur. Upplifði hann geðveikan þekkti hann ekki og varð ofsahræddur og veit að í þessu öllu var minnið mitt þurrkað út. Annars hefði ég ekki lifað af álagið sem var í kringum þetta.
Þarna skapaði ég þessi ofurábyrgð, þörfina fyrir að alltaf standa mig, alltaf skilja og vera skilningsríkur, missti um leið alla trú á mig enda alltaf skammaður og kallaður aumingi af pabba þegar þetta gekk á.
Á fullorðins árum mínum upplifi ég sterka þörf fyrir að alltaf gera eitthvað svo fólki líki við mig. Að ég sé einskis virði eins og ég er. Einangraðist mikið þrátt fyrir vinnu og annað. Var einn innra með mér einmanna. Hef ekki kunnað á fullorðins samskipti á jafningjagrunni. Það var í lagi í vinnunni ég varð yfirmaður hafði hlutverk og stóð mig vel. Kunni að taka ábyrgð og vera duglegur og samviskusamur. Í félagslífinu var ég hækja á mínum fyrrverandi sem sá um að bjóða fólki og að við færum út.
En ég í sjálfum mér var einskisvirði og ekki þess virði að elska. Fann stöðugt fyrir meira tilgangsleysi og átti erfiðara með að sinna vinnu og hitta fólk. Notaði einu aðferðina sem ég kunni og frysti mig og leyfði engum að nálgast eða vita hvernig mig leið á bakvið grímuna sterku.
Á endanum skildi ég og einangraðist meir og meir. Fór út á kaffihús þar sem ég kunni hlutverkið, var í vinnuhlutverkinu en svo var ég búinn á því og lokaði mig af og sagði oftast sófinn er besti vinur minn lífið var búið eftir kl. fjögur á daginn.
En ég fann aftur líf til að lifa þegar ég fór að skoða meðvirkni mína og vinna í 12. spora samtökum sem fjalla um þessi mál. Það er líf eftir meðvirkni. Það hefur ekki verið og er enn ekki auðvelt að breyta gamla mynstrinu mínu og allri lærðri hegðun úr æsku. Ég er enn að bregðast við samkvæmt viðbrögðum sem ég lærði sem barn en ég er meðvitaður um það og reyni að endurtaka ekki hlutina heldur læra af þeim og fara nýja leið. Lífið er betra það er auðveldara en stundum staldra ég við og finn hik við þessa nýju upplifun mína af lífinu. Þetta er flest svo nýtt og öðruvísi en smátt og smátt er mér að takast að breyta hlutunum einum í einu einn dag í einu.
Það er erfitt að leyfa þeim sem mér þykir vænt um að takast sjálf á við sitt líf. Ég hef oft viljað vera með puttann í því. En hver og einn verður sjálfur að finna sjálfan sig engin getur gert það fyrir hann. Það er ég að læra og oft er ég hissa þegar ég stend frammi fyrir nýjum atvikum í lífi mínu. Í fyrstu hræðist ég þessa hluti, staði eða fólk en veit að með því að stíga inn í óttann mun ég upplifa lífsfyllingu og gæði sem eru engu öðru lík.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 4719
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.